Óbreyttur afgreiðslutími

Lánþegar athugið!

Bókasafnið í Hveragerði heldur óbreyttum afgreiðslutíma þrátt fyrir samkomubann en engir viðburðir, s.s. sýningaropnanir og sögustundir, verða haldnir á meðan samkomubannið er í gildi. Gestir eru hvattir til að hafa hæfilega fjarlægð sín á milli. Áfram verður lögð áhersla á aukin þrif umfram venjubundna ræstingu, m.a. er þurrkað af öllum gögnum sem koma úr útláni með sótthreinsi auk þess sem leikföng, bangsar og tafl úr barnadeildinni hefur verið fjarlægt. Dagblöð og tímarit eru ekki til afnota á safni á meðan ástandið varir.

Í ljósi þess að margir íbúar Hveragerðis eru í sóttkví þessa daga viljum við einnig koma til móts við þann hóp og bjóða fólki að fá gögn sem óskað er eftir beint í bílinn við starfsmannainngang austan megin eða heimsend (innanbæjar). Þeir sem hafa áhuga á að nýta sér slíkt geta haft samband við okkur í gegnum síma, tölvupóst eða facebook-skilaboð og fengið nánari upplýsingar. Athugið að gott er að kanna á www.leitir.is hvort efnið sem óskað er eftir er í hillu áður en haft er samband. Við minnum á að það kostar ekkert fyrir börn yngri en 18 ára að fá bókasafnsskírteini.

Íbúar eru hvattir til að fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu á heimasíðu Hveragerðisbæjar. Þá eru íbúar jafnframt hvattir til að fylgja leiðbeiningum landlæknis um viðbrögð við veirunni inn á covid.is . Við erum öll almannavarnir.