Um safnið

Bókasafnið í Hveragerði var stofnað árið 1937 eða 8 eftir að tvö lestrarfélög úr Ölfusinu höfðu verið sameinuð, þ.e. lestrarfélagið Mímir í austursveitinni og lestrarfélag Hjallasóknar í vestursveitinni. Bókunum, sem voru eitthvað á annað hundrað, var komið fyrir í stæðilegum skáp í forstofu skólastjóra barnaskólans, Helga Geirssonar. Plássið var um 3 fermetrar. Bókakostur óx hægt fyrstu árin og tekjurnar í samræmi við það. Árið 1940 voru 302 bækur í Bókasafninu í Hveragerði, árið 1986 voru þær orðnar um 6.600 talsins en nú eru gögnin rúmlega 29.000.

Haustið 1947 flutti safnið í 11 fermetra herbergi í barnaskólanum. Árið 1978 var það svo loks flutt í 50 fermetra húsnæði að Hverahlíð 24. Þar þótti aðstaðan ágæt og smá vinnuaðstaða var fyrir bókavörðinn. Síðustu árin voru bækurnar þar bókstaflega út um allt, ofan frá rjáfri og niður á gólf! Það var því mjög ánægjulegt þegar bókasafnið fékk inni að Austurmörk 2 vorið 1999 í um 150 fermetrum. Þar var bjart og rúmgott til að byrja með, en þegar tekið var upp úr kössum og farið að kaupa inn bækur voru hillurnar fljótar að fyllast.

Haustið 2004 flutti safnið ennþá í nýtt húsnæði í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk. Húsnæðið er glæsilegt og staðsetningin frábær. Starfsemi safnsins hefur breyst nokkuð eftir flutningana því að nú er það ,,í leiðinni" þegar fólk gerir matarinnkaupin. Fyrirkomulag í safninu finnst safngestum notalegt.

Þegar vinna hófst við grunn verslunarmiðstöðvarinnar kom í ljós jarðsprunga mikil. Hlé var gert á framkvæmdum og breytingar gerðar á hönnun hússins. Sprungan lá gegnum bókasafnið og pósthúsið/upplýsinga-miðstöðina og var því ákveðið að setja gler yfir hana og lýsa hana upp svo fólk gæti barið hana augum. Sprungan hefur vakið mikla athygli, jafnt safnsgesta sem ferðamanna, innlendra og erlendra.

Árið 2005, fyrsta heila árið í Sunnumörkinni, fjölgaði heimsóknum í safnið um 109% frá árinu áður. Heildargestafjöldi komst í 18.618. Heildarútlán árið 2005 voru 19.706 safngögn eða tæplega 10 bækur á hvern íbúa í Hveragerði það árið. Til gamans má geta þess að árið 1998, síðasta ár bókasafnsins í Hverahlíðinni, voru heildarútlán 9.187 safngögn. Árið 2011 komst heildargestafjöldi í 25.636 og heildarútlán urðu 22.136 eða 9,56 safngögn á hvern íbúa í Hveragerði. Margir sumarbústaðagestir líta hér inn og fá sér skammtímakort.