Leshringur

Leshringurinn hittist á bókasafninu síðasta fimmtudag hvers mánaðar Bókakápa: Leitin að tilgangi lífsins
kl. 17-18 yfir vetrarmánuðina.

Í hverjum mánuði er lesin ein bók sem svo er fjallað um á næsta fundi. Allir eru velkomnir í leshringinn og þeim sem hafa áhuga á að lesa bók mánaðarins er bent á að koma við í afgreiðslu bókasafnsins og fá hjá okkur eintak af bókinni. 

Næsti fundur leshringsins verður fimmtudaginn 23. febrúar og þá verður fjallað um bókina Leitin að tilgangi lífsins eftir Viktor E. Frankl. 

Höfundur bókarinnar var austurrískur geðlæknir og upphafsmaður kenningar í sálarfræði sem nefnd er lógóþerapía eða tilgangsmeðferð. Þar er lögð áhersla á að í lífi sérhvers manns sé einstakur tilgangur sem hver og einn verði að finna fyrir sjálfan sig. Frankl sat í fangabúðum nasista og notar reynslu sína úr fangabúðunum sem undirstöður kenninga sinna. Frásögnin úr fangabúðunum hefur fyrst og fremst þann tilgang að sýna fram á gildi kenningarinnar en ekki að rekja hörmungar fangabúðarlífsins.

Gordon W. Allport prófessor í sálarfræði skrifar formála að bókinni og segir m.a.: „Ég mæli af heilum hug með þessari bók því að hún er dramatísk frásagnarperla sem fjallar um mesta vanda mannsins. Hún hefur bókmenntalegt og heimspekilegt gildi og er nauðsynlegur inngangur að merkustu sálfræðistefnu nútímans.“

Páll Skúlason prófessor í heimspeki skrifar formála að íslensku útgáfunni og segir þar m.a.: „Að axla ábyrgð sína á hinu hverfula augnabliki lífsins og finna hvað gefur því gildi. Það er að þeim tilgangi lífsins sem við skulum leita.“