Norma Samúelsdóttir sýnir á bókasafninu

Opnuð hefur verið sýning á málverkum eftir Normu Samúelsdóttur á Bókasafninu í Hveragerði. Norma fæddist í Glasgow í Skotlandi árið 1945 íslenskri móðir og skoskum föður. Ársgömul flutti hún til Íslands og bjó lengstum í Vesturbæ Reykjavíkur ásamt foreldrum, bræðrum og afa sínum. Norma hefur búið í Hveragerði frá árinu 2000 og hefur málað lengi. Hún er að mestu sjálfmenntuð en hefur sótt ýmis námskeið gegnum tíðina, m.a. hjá Mýrmann, Þuríði Sigurðardóttur, Katrínu Briem, Grétu Berg, Myndlistaskóla Reykjavíkur, Námsflokkum Reykjavíkur og Fjölbrautarskóla Suðurlands.

Norma hefur verið félagi í Myndlistarfélagi Árnessýslu frá árinu 2001. Hún er með vinnuaðstöðu í gamla barnaskólanum Hveragerði ásamt fimm öðrum listamönnum. Auk þess að mála hefur Norma einnig gefið út fjölda bóka, síðast ljóðabókina Maríuerlan eins og fiskur árið 2016

Sýningin mun standa út mars og er opin á sama tíma og bókasafnið; mánudaga kl. 11-18:30, þriðjudaga-föstudaga kl. 13-18:30 og laugardaga kl. 11-14.