Leshringur

Fyrsti leshringurinn á nýju ári verður fimmtudaginn 30. janúar kl. 17. Þá ætlum við að fjalla um bókina Uppvöxtur litla trés eftri Forrest Carter. Hægt er að nálgast eintök af bókinni í afgreiðslu bókasafnsins. 

Um bókina:

Litla tré er kynblendingur af ættum Séróka-indíána sem leitar skjóls í fjallakofa afa síns og ömmu þegar hann stendur uppi munaðarlaus, fimm ára gamall, við upphaf heimskreppunnar miklu. Þar kynnist hann siðum og menningararfi indíána og lærir að horfa á heiminn með augum þeirra.

Sagan um Litla tré er öðrum þræði æskusaga sem geislar af kátínu og lífslöngun þess sem nemur tilveruna með skilningarvitum barnsins. En jafnframt er hún saga heillar þjóðar, lituð trega og dapurleika fólks sem sá menningu sína fótum troðna af valdsherrum hvíta kynstofnsins og átti sér þann eilífa draum allra þjáðra manna að mega sameinast aftur í landi fyrirheitanna.

Sagan um Litla tré fór hægt af stað út í heiminn og höfundurinn, Forrest Carter sem lést árið 1979, lifði það ekki að sjá vinsældir sögu sinnar. En smám saman tók hún að "rata til sinna". Á tveimur áratugum hefur hún selst í gífurlegu upplagi á ótal tungumálum um víða veröld og indíánadrengurinn Litla tré hefur eignast aðdáendur meðal ungra og aldinna um allan heim.

Gyrðir Elíasson þýddi.