Leshringur

Þar sem sumardaginn fyrsta ber upp á síðasta fimmtudag aprílmánaðar verður næsti fundur leshrings bókasafnsins haldinn fimmtudaginn 18. apríl. Þá verður fjallað um bókina Rán eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Það verður heitt á könnunni að vanda og öll velkomin. Eintök af bókinni má nálgast í afgreiðslu bókasafnsins.

Um bókina:

Skáldsagan Rán eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur er seiðandi og magnþrungið verk sem lýsir á einstakan hátt innri sem ytri átökum á umbrotatímum og þeim margræða sannleika sem hver og einn þarf að glíma við.

Öll sín fullorðinsár hefur Rán lifað og starfað fjarri heimahögunum, mótast og þroskast á framandi slóðum. Nú er hún á leið frá heimili sínu og manni í Sviss til fósturjarðarinnar, Íslands, með viðkomu í Barcelona þar sem hún átti viðburðaríkt líf á æskuárum.

Rán hefur fáu gleymt þótt borgin hafi breyst og ferðin verður stefnumót við fortíðina – hún þarf að horfast í augu við liðna tíma og glataðar hugsjónir. En það þarf hugrekki til að halda inn í þyrnóttan minningaskóginn og rifja upp kynnin við eldhugann og andófsmanninn Roberto; sársauki fortíðarinnar „ýfist upp eins og hún hafi skilið hann eftir á miðri Montcadagötu endur fyrir löngu og hann beðið hennar allan þennan tíma eins og tryggur hundur.“