Nýtt efni

Kápa: Vatnið brennur
Vatnið brennur
höfundur: Gunnar Theodór Eggertsson

Fiðlan liggur eins og morðvopn á gólfinu. Stúlkan lokar augunum og hlustar á blóðið spýtast, telur slögin taktfast.

Raftónlistarkonan og ólíkindatólið Gríma er komin austur í Neskaupstað til að spila á Eistnaflugi, þótt hún eigi litla samleið með málmhausum og láti flest sem viðkemur hátíðinni fara í taugarnar á sér. En ferðin reynist vendipunktur í lífi Grímu því þar kemst hún í kynni við gamla, sænska þjóðlaga ¬ plötu sem tengist dularfullu og ógeðfelldu morðmáli snemma á áttunda áratugnum. Og fyrr en varir hefur ævaforn lagstúfur náð yfirnáttúrulegum tökum á tónlistarkonunni …

Vatnið brennur er margslungin og spennandi hrollvekja sem slær glænýjan tón í íslenskum bókmenntum. Sögusviðið spannar Ísland samtímans jafnt sem Svíþjóð hippatímabilsins en auk þess er flakkað vítt og breitt, frá fornöld til framtíðar, og samband mannskepnunnar við tónlist skoðað frá óvæntum og oft myrkum hliðum.

Verðlaunahöfundurinn og tónlistarmaðurinn Gunnar Theodór Eggertsson skrifar bæði bækur fyrir börn og fullorðna. Hrollvekjur hafa alltaf verið í sérstöku uppáhaldi hjá honum en hann hóf einmitt feril sinn með hryllingssmásögunni Vetrarsögu sem hlaut Gaddakylfuna 2005.