Ljósmyndasýning Dagnýjar Daggar

Ljósmyndir Dagnýjar Daggar prýða sýningarrými bókasafnsins í desember. 
Um sýninguna:

L J Ó S M Y N D A S Ý N I N G

Dagný Dögg Steinþórsdóttir er fædd árið 1982. Hún er gift þriggja barna móðir, búsett í Hveragerði og útskrifaðist úr Tækniskólanum eftir nám í ljósmyndun vorið 2021. „Ljósmyndun hefur alltaf átt hug minn. Ég hef verið að taka myndir í 20 ár.  Náttúran spilar stóran þátt í mínu myndefni. Mér finnst skemmtilegast að mynda við útimyndatökur því umhverfið og birtan getur verið svo fjölbreytt og boðið upp á svo mikla möguleika."

E I N S T Ö K  H Ú S 

Eyðibýli hafa í gegnum tíðina verið mörgum innblástur að verkum hvort sem það eru rithöfundar, listmálara, ljósmyndarar eða aðrir listamenn. Það fylgir húsunum ákveðin drungi, að sjá þau standa ein og yfirgefin í stórbrotnu landslagi þar sem fjöllin eða hafið spilar oft stóran þátt í umhverfi þeirra.

Eyðibýli geta haft mikla þýðingu af ýmsum ástæðum, geta verið merkar menningarminjar og mikilvægar heimildir um byggðasögu í sveitum.

Það er oft svo mikil dulúð sem fólk tengir við yfirgefin hús þar sem allt iðaði af lífi áður fyrr en er hljót og kyrrt þegar þau standa án lífs. Að framliðið fólk sækist eftir að búa þar og gamlir ábúendur séu á sveimi og fylgist með gestum sem þar bera að garði. Margar draugasögur og hjátrú spretta upp frá slíkum húsunum og oft hægt að ímynda sér að húsið hafi sál, sé jafnvel í huga þess sem á það horfir hrein sjónhverfing. Vin í eyðimörk fólksins sem þar bjó og hyllingar þess sem það byggði.

Mörgum spurningum er enn ósvarað. Hvað olli því að fólk byggði hús fjarri allri byggð?  Enn stærri spurning ... hvers vegna yfirgaf það hús sitt svo snögglega og skildi svo mikið af minningum eftir?

Klippimyndirnar eru að mínu mati skemmtileg tilbreyting frá því að hafa allt í föstum skorðum yfir í það að hafa áhrif á hvernig við skynjum myndirnar, nálægð, dýpt og skapa þannig allt önnur áhrif en upprunaleg mynd hafði. Þegar við skoðum myndir af eyðibýlum eru þær mjög oft hafðar í svart hvítu því það gefur ákveðna dýpt og dulúð inn í myndina. Ég ákvað hins vegar að leyfa blæbrigðum litanna að njóta sín í íslensku landslagi þar sem tíminn hefur málað húsin sínum ryðfúnu litum.                              

 

Drangavík á Ströndum

Í Drangavík
Þar sem andi löngu liðina tíma býr
Og útselskópur grætur um nætur.

Innanum hrikaleg Drangaskörðin
Og himinblátt hafið
Innanum fölna grasið
Hundaþúfur og hulduborgir
Áin líður hjá
Þar stendur gamalt einmanna hús.

Einhverju sinni bjó þar fólk
Sem nytjaði sína jörð
Átti belju og bú
Og sótt bein í sjó.

Nú eru mennirnir horfnir á braut
Og það er minkurinn einn sem læðist inn
Til að vitja þrastahreiðurs.

Þú kemur í Drangavík
Einn góðan veðurdag
Er vindurinn feykir loðnu
Löngu föllnu grasinu
Skuggaleg ský á lofti
Og brimhljóð við ströndina.

Þú undrast að nokkurntíma hafi leikið hér líf.

           Elísabet Kristín Jökulsdóttir 1974  Kattahirðir í Trékyllisvík